Umfang ólöglegrar hótelgistingar fyrir erlenda ferðamenn hefur aukist þrátt fyrir að reynt hafi verið að sporna gegn henni. Nú eru hið minnsta 1500 slík herbergi til leigu í Reykjavík og 1800 herbergi um land allt, að mati Kristófers Óliverssonar framkvæmdastjóra Center Hotels og starfsmanna hans.

Í Morgunblaðinu kemur fram að Kristófer byggir matið meðal annars á erlendum vefsíðum sem bjóða gistingu. Þar megi sjá að sumir leigjendur hafi fært út kvíarnar og leigi margar íbúðir. Til samanburðar eru að hans sögn rúmlega 3000 herbergi í löglegum rekstri í Reykjavík.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri boðar hert eftirlit með greiðslum fyrir ólöglega gistingu. „Það er alveg ljóst að þessar greiðslur í gegnum PayPal fara vaxandi og það þarf að bregðast við með ákveðnum hætti. Við teljum okkur hafa náð utan um þetta og erum í viðræðum við alþjóðleg greiðslukortafyrirtæki um að fá upplýsingar,“ segir Skúli Eggert við Morgunblaðið.