Áfengissala hefur aukist stórlega það sem af er ári samanborið við aukningu undanfarinna ára. Á síðustu sex árum hefur ÁTVR hagnast um 7,7 milljarða og greitt til ríkissjóðs um 7,1 milljarð og er þá ekki meðtalið sá arður sem fyrirtækið kemur til með að skila í kjölfarið rekstrarársins 2016.

1.500 milljónir í arð árið 2015

Allt frá því að áfengisverslun ríkisins var komið á fót hefur verslunin verið rekin með hagnaði og að sögn rekstraraðila miðast starfsemi ÁTVR við að hún sé sem hagkvæmust og afli tekna sem nægi til að greiða rekstrarkostnað og skila hæfilegum arði til ríkissjóðs. Stór hluti tekna er með einum eða öðrum hætti hluti af tekjum ríkissjóðs þ.e. í formi áfengis- og tóbaksgjalda, virðisaukaskatts og arðs. Árið 2015 nam þessi upphæð um 23.566 milljónum króna, en var 23.653 milljónir kr. árið 2014. Alls nam arður ÁTVR til ríkissjóðs 1.500 milljónum króna árið 2015.

Vínbúðir
Vínbúðir
© vb.is (vb.is)

Eins og sjá má í töflunni hér að ofan hefur arðurinn aukist jafnt ár frá ári að undanförnu en árið 2009 skilaði ÁTVR þannig 960 milljónum til ríkissjóðs en 1.400 milljónum árið 2014. Miðað við það sem fram hefur komið má gera ráð fyrir að arður til ríkisins komi til með að aukast í kjölfarið rekstrarársins 2016.

Athygli vekur hve mikið umfang arðgreiðslna frá fyrirtækinu jókst á árunum eftir hrun. Þannig greiddi fyrirtækið aðeins 182 milljónir í arð árið 2008 og 152 milljónir árið 2007 og því má segja að orðið hafi tæplega 887% aukning í arðgreiðslum til ríkisins á árunum 2007 til ársins 2015.

Að sögn Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur er ástæðan fyrir þessari miklu aukningu lagabreyting sem gerð var árið 2008 um álagningu ÁTVR auk þess sem áfengisgjöld hækkuðu talsvert síðari hluta árs 2008. Inn í lögin var bætt ákvæði um að álagning á ÁTVR á sterku áfengi skyldi vera 12%, á léttvín og bjór 18% og tóbak 18%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.