Mikill áhugi er meðal Íslendinga á því sem er að gerast í tækni- og þekkingariðnaði því um 15.000 manns heimsóttu stórsýninguna Tækni og vit 2007 sem haldin var í Fífunni í Kópavogi 8.-11. mars að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Þar kynntu yfir 100 sýnendur vörur sínar og þjónustu fyrir fagaðilum og almenningi.

Geir H. Haarde forsætisráðherra opnaði Tækni og vit 2007 formlega á fimmtudagskvöld en u.þ.b. 1.000 gestir voru viðstaddir opnunina. Auk Geirs fluttu Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, og Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, ávarp við opnunina. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti sýninguna einnig í boði Samtaka iðnaðarins þar sem hann gróðursetti sprota í Sprotatorg SI og kynnti sér stefnumál samtakanna varðandi sprotafyrirtæki.

Sprotatorg Samtaka iðnaðarins kom svo enn meira við sögu á laugardeginum því þá var tilkynnt um val dómnefndar á athyglisverðustu sýningarsvæðunum á Tækni og viti 2007 og hreppti sprotatorgið fyrstu verðlaun. Önnur verðlaun hlaut fyrirtækið CAOZ sem sérhæfir sig í gerð tölvugerðra teiknimynda. Hugbúnaðarfyrirtækið Rue de Net og hönnunarfyrirtækið H2 hönnun hlutu svo bæði þriðju verðlaun.

Jafnframt var tilkynnt um úrslit atkvæðagreiðslu um athyglisverðustu vöruna eða þjónustuna á Tækni og viti 2007 að mati fagaðila. Það reyndust vera rafræn skilríki en þau voru kynnt á sýningunni á vegum Auðkennis, Landsbankans og fjármálaráðuneytis. Kosningin fór fram á sýningarsvæði mbl.is á Tækni og viti 2007.

Fjölmargir viðburðir voru haldnir í tengslum við Tækni og vit 2007. Þar má nefna UT-daginn sem haldinn var á vegum forsætis- og fjármálaráðuneytis 8. mars. Í tilefni hans var haldin fjölmenn ráðstefna í Salnum í Kópavogi þar sem fjallað var um rafræna stjórnsýslu. Meðal annars kynnti Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra verkefnið um rafræn skilríki og fjallað var um upplýsingaveituna Ísland.is sem er verkefni á vegum forsætisráðuneytis.

Einnig héldu Samtök iðnaðarins athyglisverða ráðstefnu 9. mars um samskipti frumkvöðla og fjárfesta auk þess sem Vaxtarsprotinn 2007 var veittur við hátíðlega athöfn. Fyrirtækið Marorka ehf. hlaut Vaxtarsprotann en það er viðurkenning á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík fyrir öflugan vöxt sprotafyrirtækis.

AP sýningar stóðu að Tækni og viti 2007 í samstarfi við forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins, Háskólann í Reykjavík, Orkuveitu Reykjavíkur og TM Software.