Íbúðalánasjóður upplýsir á þessari stundu ekki um það hverjir kaupendur að 156 eignum sjóðsins er. Eins og VB.is greindi frá í morgun er þetta næststærsta sala Íbúðalánasjóðs hingað til, á eftir sölunni til Kletts, en í því tilfelli var Íbúðalánasjóður að selja eigin dótturfélagi eignir. Í þessu tilfelli er verið að selja þriðja aðila eignirnar.

„Það er komin viljayfirlýsing um það að viðkomandi eru að ganga til samninga. Það fer fram söluskoðun næstu mánuði,“ segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, í samtali við VB.is. Síðan í byrjun maí þurfi að liggja fyrir fjármögnun. „Svo er gengið frá kaupunum upp úr miðjum maí,“ segir Sigurður. Hann tekur fram að það sé reynsla Íbúðalánasjóðs að fjármögnunin takist ekki alltaf.

Sigurður segir að eignirnar sem til stendur að selja séu staðsettar víðsvegar um landið. Þar á meðal í Borgarbyggð, Fjarðarbyggð, Fljótsdalshéraði, Hafnarfirði, Hveragerði, Ísafirði, Kópavogi, Reykjanesbæ og í Reykjavík.