Nýliðið sumar er þriðja fjölmennasta ferðamannasumarið hér á landi, en alls fóru 678.080 ferðamenn um Keflavíkurflugvöll á tímabilinu. Ferðamönnum fækkaði þó um 15,6% frá því á sama tímabili í fyrra. Fækkunin á milli ára er að mestu bundin við tvo markaði, Norður-Ameríku og Bretland, á meðan Mið- og Suður-Evrópa heldur nánast sínum hlut. Þá fjölgaði ferðamönnum frá Asíu. Bandaríkjamenn voru líkt og áður fjölmennastir eða 27,8% af heildarfjölda. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt Ferðamálastofu: Ferðaþjónusta í tölum - sumar 2019 .

Meðaldvalarlengd ferðamanna hér á landi fór nokkuð upp á við á milli ára, eða um 5,4%. Sem fyrr eru það ferðamenn frá Mið- og Suður-Evrópu sem staldrar lengst við. Langflestir ferðamenn komu til Íslands í frí eða 91,3% og stóð dvöl þeir að jafnaði yfir í 7,8 nætur.

Lagflestir heimsóttu Höfuðborgarsvæðið eða 89%, 81% Suðurland, 61% Reykjanes, 57% Vesturland, 42% Norðurland, 38% Austurland og 16% Vestfirði. Þegar svarendur voru hins vegar spurðir að því í hvaða landshluta þeir hefðu gist nefndu 75% Höfuðborgarsvæðið, 55% Suðurland, 36% Vesturland, 34% Norðurland, 28% Austurland, 24% Reykjanes og 10% Vestfirði.