Um 15,6 milljarða króna halli var hjá A-hluta Reykjavíkurborgar árið 2022 samanborið við 3,8 milljarða halla árið áður. Borgin áætlaði í byrjun nóvember að hallinn yrði um 15,3 milljarðar. Ársreikningur Reykjavíkurborgar var birtur kl. 13 í dag.

Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta borgarinnar var jákvæð um 6 milljarða króna, sem skýrist að stærstum hluta af matsbreytingum Félagsbústaða, sem nam 20 milljörðum í fyrra sem var engu að síður undir áætlun borgarinnar. Í fjárhagsáætlun sem birt var í nóvember var áætlað að rekstrarniðurstaða A- og B-hlutans yrði jákvæð um 15,4 milljarða.

Í tilkynningu borgarinnar segir að halli af málaflokki fatlaðra hafi numið 9,3 milljörðum í fyrra. Rekstrarniðurstaða A-hlutans án halla af málefnum fatlaðs fólks hafi því verið neikvæð um 6,4 milljarða. Borgin segir samanlagðan halla af málaflokki fatlaðs fólks á árunum 2011-2022 nema 35,6 milljörðum.

Borgin segir að mikil verðbólga liti uppgjörið. Verðbólga sem var 9,9% í fyrra, samanborið við 3,3% í áætlun borgarinnar leiði til töluvert hærri fjármagnsgjalda.

„Hallarekstri og erfiðum aðstæðum í alþjóðlegu efnahagsumhverfi verður mætt með vexti þróttmikils borgarsamfélags til lengri tíma, en með markvissum aðgerðum í rekstri og samdrætti í fjárfestingum miðað við áætlanir síðustu ára til skemmri tíma. Ekki verður dregið úr öflugri sókn í uppbyggingu borgarinnar í samræmi við Græna planið og stefnumörkun þess. Skýr sýn verður á græna og vaxandi borg fyrir fólk, sjálfbæran rekstur og fyrirbyggjandi aðgerðir til að lágmarka fjárhagslega áhættu í rekstri borgarinnar,“ segir í tilkynningunni.

Rekstrartekjur A-hlutans námu 118,6 milljörðum í fyrra sem er 7,3% aukning frá fyrra ára. Rekstrargjöld jukust um 14,6% á milli ára og námu 158,4 milljörðum. Þar af námu laun og launatengd gjöld 91,5 milljörðum sem er 8% aukning á milli ára.

Því var rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir neikvæð um 2,2 milljarða og 9,9 milljarða eftir afskriftir. Hrein fármagnsgjöld borgarinnar námu 5,7 milljörðum í fyrra samanborið við 1,4 milljarða árið 2021.

Heildareignir A-hluta námu í árslok samtals 257 milljörðum samanborið við 236 milljarða árið áður. Heildarskuldir og skuldbindingar jukust úr 144,6 milljörðum í 174,5 milljarða. Eigið fé lækkaði úr 91,9 milljörðum í 82,6 milljarða.

Sé B-hlutinn tekinn með, ‏þá námu eignir borgarinnar 870 milljörðum í árslok 2022. Egið fé var um 424 milljarðar sem er 10,6% aukning frá fyrra ári.

Veltufé frá rekstri hjá A- og B-hluta nam 27,8 milljörðum eða 12,4% af tekjum. Hjá A-hlutanum var jákvætt veltufé frá rekstri upp á 443 milljónir sem er um 0,3% af tekjum.