„Við höfum séð verri hagtölur áður, en þessar tölur virðast nokkuð örugglega marka upphaf einhvers verra“ segir bandaríski hagfræðingurinn Pierre Ellis í samtali við fréttavef BBC.

Fram kemur á vefnum að 159 þúsund bandarískir launamenn hafi misst vinnuna í mánuðinum sem var að klárast og þarf að leita aftur til ársins 2003 til þess að finna svipaðar tölur.

September var níundi mánuðurinn í röð þar sem störfum fækkaði í Bandaríkjunum og segir Ellis að upplýsingarnar um vinnumarkaðinn beri með sér veikleikamerki á öllum mikilvægustu vígstöðvum.