Vísitala neysluverðs (VNV) miðuð við verðlag í október 2008 er 322,3 stig og hækkaði um 2,16% frá fyrra mánuði. Tólf mánaða verðbólga mælist því 15,9%.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun tólf mánaða verðbólgu síðastliðin fimm ár, eða frá október árið 2003.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 292,9 stig og hækkaði hún um 3,02% frá september.

Þá kemur fram að verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 4,3% (vísitöluáhrif 0,55%) og verð á fötum og skóm um 4,9% (0,22%).

Verð á húsgögnum, heimilistækjum, heimilisbúnaði o.fl. hækkaði um 7,1% (0,46%), á varahlutum og hjólbörðum um 19,6% (0,20%), á flugfargjöldum til útlanda um 18,7% (0,20%) og verð á sjónvörpum, dvd-spilurum, tölvum o.fl. hækkaði um 10,6% (0,15%).

Þá lækkaði verð á bensíni og díselolíu um 3,4% (-0,17%).

Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 1,3% (-0,21%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,24% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,03%.

Eins og áður segir hefur vísitala neysluverðs hækkað um 15,9% síðastliðna tólf mánuði en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 17,8%.

Á vef Hagstofu kemur fram að undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,0% sem jafngildir 16,8% verðbólgu á ári (22,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis).