Ríkisstjórn Nýja Sjálands samþykkti í dag tilboð kínverska fjárfestingarfyrirtækisins Shanghai Pengxin Group í 16 bújarðir á Nýja Sjálandi sem áður voru í eigu nýsjálenska fyrirtækisins Crafar Farms (sem nú er orðið gjaldþrota). Um er að ræða átta þúsund hektara landsvæði á Norðureyju á Nýja Sjálandi (um 80 ferkílómetrar).

Frá þessu er greint á vef Wall Street Journal (WSJ). Málið hefur þótt umdeilt í Nýja Sjálandi og hafði m.a. verið deilt um það í dómstólum. Þannig hefur það þótt umdeilt að selja erlendum fjárfestum svo stóran hlut í landbúnaðarframleiðslu landsins, en allar jarðirnar sextán eru stórar framleiðslujarðir og þá sérstaklega á mjólkurafurðum.

Það er dótturfélag Shanghai Pengxin, Milk New Zealand Holding, sem kaupir jarðarnar formlega og hefur nú hlotið samþykkti þarlendra yfirvalda.

Bændasamtökin á Nýja Sjálandi  höfðu áður lagst gegn sölunni og farið með málið fyrir hæstarétt í Wellington. Hæstiréttur ógilti söluna við mikinn fögnuð bænda þar í landi. Síðan þá hefur kínverska félagið stofnað fyrrnefnt dótturfélag með aðsetur á Nýja Sjálandi, sem í dag fékk leyfi til að kaupa jarðarnar.

Svona deilumál eru Íslendingum ekki ókunn, en sem kunnugt er var kínverska fjárfestingum Huang Nubo nýlega synjað um undanþágu til að kaupa um 72% af 300 ferkílómetra landi Grímsstaða á Fjöllum.