Kauptilboð FL Group til hluthafa félagsins um kaup á bréfum í FL Group gegn greiðslu með hlutabréfum í Glitni, í tengslum við fyrirhugaða afskráningu félagsins, rann út í gær.

Eigendur um 99% hlutafjár félagsins tóku afstöðu til kauptilboðsins samkvæmt tilkynningu frá FL Group.

Eigendur um 16% hlutafjár í FL Group, um 2.400 aðilar, samþykktu kauptilboðið og munu fá greitt með hlutabréfum í Glitni banka.

Eigendur um 84% hlutafjár í FL Group, um 1.900 hluthafar, munu því eiga hluti sína áfram í félaginu eftir afskráningu þess.

Kauptilboðið var lagt fram í kjölfar hluthafafundar FL Group þann 9. maí 2008 þar sem samþykkt var tillaga stjórnar félagsins um að óska eftir afskráningu félagsins.   Hluthafafundurinn samþykkti einnig einróma tillögu stjórnar um bjóða hluthöfum þann valkost að selja bréf sín í FL Group og fá greitt í hlutabréfum í Glitni.

Kaupverð hluta í FL Group í tilboði til hluthafa var 6,68 á hlut sem var meðalgengi FL Group í aprílmánuði 2008 og gengi á hlutum í Glitni var 17,05 á hlut sem var lokagengi Glitnis þann 30. apríl 2008.

Skiptihlutfallið í tilboði til hluthafa var því 0,3918 hlutir í Glitni banka fyrir hvern hlut í FL Group.

„Endanlegt uppgjör á viðskiptunum fer fram 29. maí 2008 og eru niðurstöðurnar settar fram með fyrirvara um óuppgerð viðskipti,“ segir í tilkynningu frá FL Group.