Streymisveitan Netflix bætti við sig hátt í 16 milljón áskrifendum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, um tvöföldum þeim fjölda sem spáð hafði verið.

Fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar var spáð 7 milljón áskrifenda viðbót, en jafnvel eftir að heimsfaraldurinn varð staðreynd var spáin aðeins um 8,2 milljónir.

Hlutabréfaverð félagsins hækkaði um allt að 10% í kjölfar fréttanna í gær, en svo til öll hækkunin gekk til baka í eftirmarkaðsviðskiptum  eftir að félagið gaf út hóflega afkomuspá sem það sagði háða mikilli óvissu.

Heildarfjöldi áskrifenda í lok fjórðungsins var 183 milljónir, og tekjur á honum námu 5,8 milljörðum dala, sem var í takt við spár.