*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 10. september 2020 17:01

1,6 milljóna króna fermetraverð

Lúxusíbúðir við Austurhöfn komnar á sölu. Fermetraverð dýrustu eignarinnar, af þeim sem bera uppsett verð, 1,6 milljónir króna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Nýjar lúxusíbúðir við Austurhöfn í miðbæ Reykjavíkur, 72 talsins, eru komnar á sölu, en íbúðirnar standa við hlið Marriott hótelsins Reykjavík Edition sem verður fyrsta fimm stjörnu hótel á höfuðborgarsvæðinu.

Uppsett verð íbúðanna er á bilinu 59 milljónir króna (49,4 fm íbúð með miðbæjarsýn)  til 345 milljónir króna (213 fm íbúð á 5. hæð með sjávarútsýni). Fermetraverð ódýrustu eignarinnar er því tæplega 1,2 milljónir en fermetraverð dýrustu eignarinnar er ríflega 1,6 milljónir króna. Þess ber þó að geta að ekki er gefið upp verð á „penthouse“ íbúðunum, sem líkt og nafnið gefur til kynna eru staðsettar á efstu hæð byggingarinnar, og má því ætla að fermetraverð stærstu eignarinnar á efstu hæðinni sé enn hærra.

Tæplega helmingur íbúðanna er í stærri kantinum, eða á bilinu 170-360 fm. 34% af íbúðunum eru á bilinu 100-150 fm. og loks er um 20% á bilinu 50-100 fm. Á fyrstu hæð hússins er svo 2.700 fm. svæði undir verslun og þjónustu. 

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var ekkert til sparað við gerð íbúðanna. Meðal þess sem finna má í íbúðunum eru vínkælar, snjallheimilskerfi, gólfhiti og vandaðar innréttingar. Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Íslenskra fasteigna, sem hafði umsjón með byggingu íbúðanna í Austurhöfn, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið undir lok árs 2018 að lögð hafi verið mikil áhersla á að horfa í þá þætti sem aðgreina þessar nýju íbúðir frá öðrum hefðbundnum íbúðum.

„Við einblínum á að bjóða upp á vöru sem stenst væntingar kaupenda. Meðal helstu kosta íbúðanna er að það mun fylgja bílastæði í bílakjallara undir húsinu fyrir flestar íbúðirnar og verður meðal annars gert ráð fyrir því að í hverju stæði verði hægt að setja upp hleðslustöð fyrir rafbíla. Það verður einnig lögð mikil áhersla á öryggi íbúanna með vönduðum aðgangsstýringum í kjallara og anddyri. Auk þess eru margar þessara íbúða með inngengi beint úr lyftu inn í íbúðina. Það eru því margar lyftur til staðar í húsinu miðað við heildarfjölda íbúðanna.

Þetta er meðal þess sem gerir það að verkum að þessar íbúðir skara fram úr því sem nú er í boði á markaðnum. Staðsetningin er einnig frábær og allt í kringum húsið er glæsilegt útsýni. Einnig verður aðgengilegur fallegur og snyrtilegur þakgarður fyrir íbúa á annarri hæð hússins. Það hefur því verið lögð mikil vinna við að huga að hverju einasta smáatriði sem tengist íbúðunum."

Borist fyrirspurnir frá innlendum og erlendum aðilum

Fjárfestirinn Eggert Dagbjartsson, sem er einn af fjárfestum bakvið byggingu umræddra lúxusíbúða í Austurhöfn, auk þess að koma einnig að byggingu fyrrnefnds fimm stjörnu hótels, talaði einnig um verkefnið í Austurhöfn í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið á síðasta ári.

„Það var einnig hugmyndin á bakvið EDITION hótelið að opna höfnina fyrir almenningi og ég vildi tryggja að sú yrði raunin í Austurhöfn. Við vildum að Austurhöfn kæmi almenningi til góða og ég tel að okkur hafi tekist það með því að hafa almenningsrými á jarðhæðunum sem munu hýsa verslanir, kaffihús og veitingastaði. Við áttuðum okkur á því frá upphafi að þessu verkefni fylgdi borgaraleg ábyrgð."

Að sögn Eggerts höfðu þegar borist fyrirspurnir frá mögulegum kaupendum, bæði innlendum og erlendum, á þeim tíma sem viðtalið var tekið. „Miðað við fyrirspurnir er líklegt að kaupendur muni bæði vera Íslendingar, sem eru búsettir hér á landi eða erlendis, sem og erlendir aðilar," sagði hann.