Félagið Bootcamp ehf. sem heldur utan um rekstur samnefndrar líkamsræktarstöðvar í Elliðarárdal skilaði 16,6 milljóna króna tapi árið 2012 samkvæmt ársreikningi félagsins. Tekjur félagsins námu 97,8 milljónum króna en rekstrargjöld 116,5 milljónum.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að tap félagsins sé fyrst og fremst vegna röskunar sem varð vegna flutnings starfseminnar. Var starfsemin flutt í stærra húsnæði sem þurfti að innrétta og aðlaga að starfsemi félagsins.

Þrátt fyrir rekstrartapið er eiginfjárstaða félagsins sterk og er jákvæð um 65,9 milljónir. Stærstu eigendur Bootcamp eru þeir Arnaldur Birgir Konráðsson og Róbert Traustason sem eiga 45% hlut hvor. Elvar Þór Karlsson á 10% hlut í félaginu.