Eignaraðilar Íslenskrar getspár fá í sinn hlut ósótta vinninga ef eigendur þeirra hafa ekki sótt þá í eitt ár. Í maí runnu því rúmlega 1,6 milljónir króna til eignaraðila en Íslensk getspá er í eigu Íþrótta- og ólympíusambands Íslands sem á 46,67% hlut, Öryrkjabandalagið á 40% hlut og Ungmennafélag Íslands 13,33%.

Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, segir Íslendinga almennt mjög duglega við að ná í vinninga sína. Stórir vinningar hafi ávallt verið sóttir á undanförnum árum og nútíma tækni geri það einnig auðveldara að koma vinningum til skila. Tæknin hjálpi til við að koma vinningum til þeirra sem eru í áskrift og sem kaupa miða á netinu.