Á öðrum ársfjórðungi var ávöxtun norska olíusjóðsins var neikvæð um 1,6%, en það er vegna lækkandi hlutabréfaverðs um allan heim og hækkandi vaxta, segir í tilkynningu norska seðlabankans í gær.

Verðmæti sjóðsins jukust þó nokkuð á tímabilinu vegna nýrra framlaga. Verðmæti sjóðsins í lok annars ársfjórðungs var 1,51 billjónir norskar króna (17.000. milljarðar króna), en í lok fyrsta ársfjórðungs var verðmæti hans 1,48 billjónir norskar krónur (16.660 milljarðar króna).

Til samanburðar námu eignir íslensku lífeyrissjóðanna í lok annars ársfjórðungs um 1.358 milljörðum króna. Ef þetta er skoðað eftir fólksfjölda í hverju landi fyrir sig, er olíusjóðurinn tæplega 4 milljónir króna á hvern Norðmann, en eignir íslensku lífeyrissjóðanna eru rúmlega 4,5 milljónir króna á hvern Íslending, segir Greiningardeild Landsbankans.

Noregur er þriðji stærsti olíuútflytjandinn í heiminum á eftir Sádi-Arabíu og Rússlandi. Norsk yfirvöld hafa um langa hríð fjárfest drjúgum hluta olíugróðans erlendis í þeim tilgangi að koma í veg fyrir þenslu heima fyrir, og eru fjárfestingar sjóðins nær eingöngu í erlendum hlutabréfum og ríkisskuldabréfum, sagði greiningardeildin.