Engar eignir fundust í þrotabúi hjá félaginu Hópferðir Ellerts ehf., sem áður hét Saga Tours, en lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta námu 160 milljónum króna.

Félagið var með úrskurði héraðsdóms Reykjaness tekið til gjaldþrotaskipta 12. október 2017 og var sama dag skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Skiptum lauk síðan 28. september 2018 þar sem engar eignir fundust í búinu. Þrátt fyrir að tæp tvö ár séu liðin frá skiptalokum var tilkynning um þau ekki birt í Lögbirtingablaðinu fyrr en í dag.

Skömmu eftir að félagið fór í þrot sakaði Ellert Scheving Magnússon , framkvæmdastjóri Hópferða ehf., stjórnendur félagsins um að breyta nafni félagsins, úr Saga Tours í Hópferðir Ellerts, til þess að koma höggi á fyrirtæki hans.