*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 8. apríl 2020 07:01

160 milljóna gjaldþrot Arnars

Lýstar kröfur í þrotabú Arnars Gunnlaugssonar námu um 160 milljónum króna. 1,3 milljónir voru greiddar upp í lýstar kröfur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Lýstar kröfur í þrotabú Arnars Gunnlaugssonar, fjárfestis og fyrrverandi atvinnumanns í knattspyrnu, námu um 160 milljónum króna. Þrotabú Arnars var tekið til gjaldþrotaskipta í júlí 2019. 

Lýstar veðkröfur að fjárhæð upp á 1,3 milljónir króna greiddust að fullu. Ekki var tekin afstaða til almennra og eftirstæðra krafna. Alls námu lýstar kröfur 73 milljónum króna og 501 þúsund sterlingspundi, sem nemur um 88 milljónum króna miðað við núverandi gengi krónunnar.

Tvíburabróður Arnars, Bjarki Gunnlaugsson, var lýstur gjaldþrota árið 2015. Þeir hafa staðið saman að ýmiskonar fjárfestingum í gegnum árin. Þeir voru meðal annars hluthafar í félaginu Hanza-hópnum ehf. fyrir hrun. Bræðurnir komu einnig að fjárfestingum í fasteignum víða um land. Þeir voru meðal stofnenda Heimavalla en seldu hlut sinn áður en félagið var skráð á markað. 

Bræðurnir voru meðal fjárfesta í PODA In­vest­ments sem stefndi að því að koma að húsbyggingum á Flórída árið 2008. Arnar kom einnig að framkvæmdum við JL húsið þegar hótelrekstur hófst í húsinu árin 2014 og 2015. 

Arnar á að baki farsælan feril sem atvinnumaður í knattspyrnu erlendis og leikmaður og þjálfari hér á landi. Hann lék meðal annars með Feyenoord, Bolton og Leicester erlendis. Arnar varð bikarmeistari á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Víkings síðasta sumar.