Hagnaður heildsölunnar Globus hf. nam 160 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins samanborið við 215 milljóna hagnað árið 2016. Félagið, sem var stofnað árið 1947, hefur komið að margvíslegum rekstri í gegnum árin en hefur frá árinu 2006 einbeitt sér að sölu áfengis og tóbaks. Velta félagsins nam rúmlega 3,5 milljörðum króna og dróst saman um 80 milljónir milli ára.

Eignir félagsins námu 1.139 milljónum króna í lok árs og þar af nam handbært fé 635 milljónum. Skuldir félagsins námu 565 milljónum en félagið er ekki með neinar langtímaskuldbindingar. Eiginfjárhlutfall í lok árs var 52%. Félagið greiddi út 160 milljónir í arðgreiðslu til hluthafa á síðasta ári en stjórn Globus leggur til að 120 milljónir verði greiddar út á árinu 2018 vegna rekstrarársins 2018. Börkur Árnason er framkvæmdastjóri Globus en hann á jafnframt fjórðungshlut í fyrirtækinu.