Afkoma Kópavogsbæjar árið 2015 var jákvæð um 161 milljón króna. Gert hafði verið ráð fyrir 398 milljóna króna afgangi en það var helst rekstrarniðurstaða A-hluta sem olli því að niðurstaðan varð neikvæðari en búist hafði verið við.

Tekjur sveitarfélagsins námu 24,6 milljörðum. Það er 200 milljónum fram yfir það sem áætlað var. Í árslok 2015 var eigið fé Kópavogsbæjar þá um það bil 16 milljarðar króna. Skuldahlutfall samstæðunnar lækkaði þá á árinu umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir. Það er nú 162,5% en var 175,2 árið á undan, sem er lækkun um 12,7 prósentustig. Hæst var skuldahlutfallið árið 2010 en þá var það heil 242%.

Laun og launatengd gjöld voru talsvert yfir áætlun á síðasta ári, eða 5,5%. Helst eru launahækkanir tengdar kjarasamningum valdur að þessari hækkun. Framlag sveitarfélagsins til lífeyrisskuldbindinga hækkaði þá einnig umfram áætlun eða um 182 milljónir króna.