Margir af viðskiptavinum Ráðgjafarstofu heimilanna hafa komið oftar en einu sinni. Frá upphafi eða 1996 höfðu 847 umsækjendur komið oftar en einu sinni og 161 umsækjandi þrisvar eða oftar. Þetta kom fram á ársfundi stofunnar í dag.

Í ársskýrslu stofnunarinnar kemur fram að frá upphafi hefur aðsókn viðskiptavina verið mikil eftir ráðgjöf hjá Ráðgjafarstofunni. Aðgangur að ráðgjöf er opinn öllum þeim sem að öllu jöfnu hafa ekki önnur úrræði, til dæmis hjá viðskiptabanka sínum eða öðrum lánastofnunum. Ráðgjafarstofunni er ætlað að aðstoða þá verst settu þar sem
aðra ráðgjöf samstarfsaðila þrýtur.

Langflestir viðskiptavina Ráðgjafarstofu búa á höfuðborgarsvæðinu. Umsóknir frá höfuðborgarsvæðinu voru á árinu samtals 75,4% umsókna, en af landsbyggðinni um 21,9%. Til samanburðar voru 78,2% umsókna árið 2003 af höfuðborgarsvæðinu, en af landsbyggðinni 21,8%. Aukin þjónusta við íbúa landsbyggðarinnar, meðal annars vegna þjónustusamninga, getur verið skýringin á þessu. Svo virðist sem þeim sem búa erlendis eða eru utan skrár hafi fjölgað úr 0,7% í 2,7%.

Hlutfallsleg skipting eftir landshlutum virðist vera með svipuðum hætti og
undanfarin ár. Enn sem fyrr eru langflestir viðskiptavinir Ráðgjafarstofunnar
búsettir í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögum.