Fyrstu sjö mánuði ársins 2014 voru fluttar út vörur fyrir 316,5 milljarða króna en inn fyrir 332,7 milljarða króna. Vöruskipti við útlönd voru því óhagstæð um 16,2 milljarða króna, en á sama tíma í fyrra voru þau hagstæð um 17,2 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofunnar.

Í júlímánuði voru fluttar út vörur fyrir 51,1 milljarð króna og inn fyrir 52 milljarða króna. Vöruskipti í júlí, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 0,9 milljarða króna. Í júlí 2013 voru vöruskiptin hagstæð um 5,3 milljarða króna.