*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Erlent 3. september 2020 19:19

16.500 milljarða björgunaraðgerðir

Frönsk yfirvöld munu meðal annars verja upphæðinni í græna orku, samgöngumál og skattalækkanir næstu tvö ár.

Ritstjórn
Jean Castex forsætisráðherra Frakklands kynnti aðgerðirnar í dag.
epa

Frönsk yfirvöld kynntu í dag björgunaraðgerðir að andvirði 100 milljarða evra – um 16.500 milljarða króna – vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins. Meðal þess sem fjármagninu verður veitt til eru grænar fjárfestingar, samgöngumál og skattalækkanir. BBC segir frá.

Aðgerðirnar munu koma til framkvæmda á næstu tveimur árum, og er það von Jean Castex forsætisráðherra að hagkerfið verði búið að ná sér að fullu að þeim tíma loknum. Upphæðin nemur um 4% vergrar landsframleiðslu Frakklands, sem féll um tæp 14% á öðrum fjórðungi þessa árs, og er spáð 11% falli milli ára fyrir árið allt.

Með þessu vilja yfirvöld hætta að reiða sig á neyðaraðgerðir, og ráðast heldur í hnitmiðaðar fjárfestingar til lengri tíma. Um 35% upphæðarinnar verður varið í að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins, 30% í grænar orkufjárfestingar, og 17% í atvinnusköpun, starfsþjálfun og félagsleg úrræði.

Um 40% fjármagnsins mun koma frá Endurreisnarsjóði Evrópusambandsins (e. European Union recovery fund), sem samþykkt var að stofna í júlí og mun fá um 750 milljarða evra til ráðstöfunar.

Stikkorð: Frakkland Jean Castex