Kvótaeigendum, þeim aðilum sem eiga aflahludeild í kvótakerfinu, hefur fækkað um 85% frá árinu 1992. Þá réðu nálega 1.100 útgerðir yfir þorskkvóta í aflamarkskerfinu. Við upphaf núverandi fiskveiðiárs hafði handhöfum aflahlutdeilda í þorski hins vegar fækkað niður í 166.

Í Fiskifréttum í dag er farið yfir þessa þróun á fjölda útgerða sem eiga aflahlutdeild í einhverjum kvótabundnum tegundum á tímabilinu 1990/1991 til 2008/2009. Fækkun útgerða var nokkuð stöðug til ársins 1998 og svo aftur 2002 til yfirstandandi fiskveiðiárs.

Helsta skýringin er hagræðing innan sjávarútvegsins. Kvótakerfið hefur gefið útgerðum færi á að selja sig út úr greininni og einnig hafa sjávarútvegsfyrirtæki sameinast.

Góð rekstrarafkoma sjávarútvegsfyrirtækja

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur sjaldan gengið betur en þessi misserin. Á móti kemur að skuldir margra sjávarútvegsfyrirtækja, einkum þeirra smærri, eru mjög miklar, og hætta á að verulegur fjöldi þeirra geti komist í þrot. Þetta kemur fram í nýri sjávarútvegsskýrslu Íslandsbanka sem fjallað er um í Viðskiptablaðinu í dag.

Í skýrslunni kemur fram að þegar einungis er horft til fjölda sjávarútvegsfyrirtækja en ekki hlutdeild í kvóta er niðurstaðan sú að 36% séu í góðum rekstri og með viðunandi skuldastöðu, og að liðlega fimmtungur fyrirtækjanna sé með lífvænlegan rekstur en miklar skuldir og þau geti því þurft á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda og aukningu í eigin fé. Hjá tæplega fjórðungi fyrirtækjanna eða 24% er staðan enn verri og þau eiga á hættu að lenda í gjaldþroti.

_____________________

Nánar má lesa um stöðu sjávarútvegsins í Viðiskiptablaðinu og Fiskifréttum .