Framkvæmdir við 2. og 3. áfanga 101 Skuggahverfis eru hafnar en alls verða byggðar 168 glæsiíbúðir í þessum lokaáfanga framkvæmdanna. Það er tvöfalt stærri framkvæmd en við 1. áfanga þar sem 79 byggingar risu. Þar var hæsti turninn 16 hæðir en miðturnin sem nú rís verður 20 hæðir og turninn austast verður 18 hæðir.

Viðræður eru í gangi við verktaka núna og mun vera ætlunin að ljúka þeim hratt þannig að framkvæmdir geti hafist skjótt en ætlunin er að byggingarnar rísi tiltölulega hratt. Búið er að semja við jarðvinnuverktaka um undirbúning lóðarinnar og er það Klæðning ehf. sem sér um það.

Mikil eftirspurn var eftir íbúðum í fyrsta áfanga og samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Björgu Þórðardóttur markaðsstjóra þá er þegar komin langur listi áhugasamra kaupenda en sala er þó ekki farin af stað ennþá. Björg sagðist vera bjartsýn á sölu húsnæðisins þó samdrætti væri spáð á húsnæðismarkaði á næstunni. "Við höldum okkar striki og erum bjartsýn á að það gangi vel að selja þessar íbúðir," sagði Björg.

Það er ljóst að um gríðarlega stóra framkvæmd er að ræða enda mikið magn íbúða á einum dýrasta stað borgarinnar. Ekki er óeðlilegt að ætla að heildarkostnaður við byggingaframkvæmdirnar verði einhversstaðar á bilinu 7 til 10 milljarðar króna.