Hagnaður af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur á fyrstu níu mánuðum ársins nam 16,8 milljörðum. Segir í tilkynningu frá félaginu að hækkun á gengi krónunnar og lækkandi fjármagnskostnaður hafi haft jákvæð áhrif á afkomuna. Greiddir vextir á fyrstu níu mánuðum ársins námu 1,5 milljörðum króna samanborið við 4,1 milljarð vaxtakostnað árið 2009.

Heildarskuldir félagsins nema 229 milljörðum króna og hafa lækkað um 12,3 milljarða frá áramótum. Heildareignir eru 286 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 20,1%.

Rekstrarhagnaður OR fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 9,9 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2010. Hagnaður fyrir skatta nam 22,4 milljörðum. Reiknaðir skattar eru 5,6 milljarðar og afkoma tímabilsins því jákvæð sem nemur 16,8 milljörðum króna.

Helgi Þór Ingason, forstjóri Orkuveitunnar, segir í tilkynningu að aðhaldsaðgerðir eigi enn eftir að skila sér. „ Þessi afkomubati er mjög jákvæður og við vinnum að því að framhald verði á. Ennþá byggist hinn bókhaldslegi hagnaður að mestu leyti á hagstæðum ytri skilyrðum eins og hækkuðu gengi krónunnar og hærra álverði. Þær margháttuðu aðgerðir, sem ákveðnar voru síðsumars og ráðist í á haustmánuðum – hagræðing í rekstri og tekjur auknar – eiga enn eftir að skila sér í uppgjörum fyrirtækisins. Ég leyfi mér að vona að reksturinn sé með þeim að öðlast þá tiltrú sem þarf til að hagkvæm fjármögnun fáist. Afkomubatinn er enn bókhaldslegur að mestu leyti og við vinnum þétt með eigendum fyrirtækisins og íslenskum og erlendum fjármálafyrirtækjum til að tryggja greiðslugetu OR á næsta ári. Það er enn brýnasta viðfangsefni í rekstri OR.“