Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll í júlí voru 231 þúsund og fækkaði um 17% milli ára. Fjöldinn frá áramótum er 1,1 milljón, sem er 13% fækkun frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu .

Bandaríkjamenn voru langtum fjölmennasti hópurinn í júlí, 28% af heildinni, en þeim fækkaði jafnframt lang mest, um 36%. Þjóðverjar voru næst flestir, 8,2% af heildinni, og fækkaði um 7,9% milli ára.

Fækkun hefur verið í hverjum mánuði frá áramótum, en hún náði ekki tveggja stafa tölu fyrr en í apríl, þegar hún nam 18,5%, og náði mest 23,6% mánuðinn á eftir.

Ferðum Íslendinga frá landinu fækkaði sömuleiðis milli ára í júlí, en þær voru um 60 þúsund talsins, sem er 8,9% fækkun. Frá áramótum eru þær orðnar 367 þúsund, sem er 5,6% fækkun frá sama tímabili í fyrra.