Í fyrsta sinn í sögu landsins fengu konur að bjóða sig fram og kjósa í sveitastjórnarkosningum Sádí-Arabíu nú á laugardaginn síðastliðinn. 17 konur voru kosnar til embættis í þó nokkrum héröðum. Viðskiptablaðið greindi frá því að kosningar væru í nánd fyrir helgi.

Frambjóðendur notuðu samfélagsmiðla sérlega mikið, þar eð fylgst er með því hvenær, hvar og hversu oft konur hitta aðra karlmenn en feður sína, bræður og eiginmenn, og auk þess er báðum kynjum óheimilt að nota af sér ljósmyndir í kosningabaráttunni.

Búist var við að ef til vill kæmust ein eða tvær konur til embættis í landinu, svo niðurstöðurnar komu á óvart. Kvenréttindafrömuðir segjast ánægðir með niðurstöðurnar, þrátt fyrir að enn sé gífurlega langt í land í átt að jafnrétti kynjanna.

Afar takmörkuð réttindi

Þrátt fyrir að konur séu nú að fá kosningarétt geta þær ekki keyrt bíl, sótt sér háskólamenntun, ferðast til útlanda án þess að fá heimild karlkyns ættingja eða ráðið hverjum þær giftast.

„Þetta er fyrsta skrefið. Þetta er upphafið af því að við verðum virkir sem borgarar landsins,“ sagði Salma al-Rashid sem starfar hjá Al Nahda Society sem hefur barist fyrir kosningarétti kvenna í landinu.