Sala bandaríska verslunarrisans Target jókst um 17% á nýliðnu hátíðartímabili í samanburði við sama tímabil í fyrra. Netsala verslunarrisans ríflega tvöfaldaðist á tímabilinu. Target hefur, til að bregðast við COVID-19 faraldrinum, sett mikið púður í að bæta netverslun sína og virðist sú vinna hafa borið árangur. Reuters greinir frá.

Í desember seldi Target 150 milljónir vara í gegnum netverslunarþjónustu sína, sem gerir viðskiptavinum kleift að sækja netpantanir sínar í næstu verslun. Er það um fjórföld aukning frá því á sama tímabili í fyrra.

Til að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins ákvað Target að lengja tímabilið þar sem sérstök hátíðartilboð eru í boði, en áður voru tilboðin aðeins í boði í örfáa daga. Þannig mátti koma í veg fyrir hópamyndanir í verslunum Target í Bandaríkjunum, sem eru um 1900 á landsvísu.