Rekstrarafgangur af rekstri Garðabæjar á árinu 2016 nam 1,7 milljarði króna, en ef gatnagerðartekjur fyrir 973 milljónir eru dregnar þar frá nemur rekstrarafgangurinn 766 milljónum króna.

Í áætlun ársins hafði verið gert ráð fyrir að sú upphæð myndi nema 312 milljónum króna, sem skýrist fyrst og fremst af íbúafjölgun umfram áætlun að því er segir í fréttatilkynningu frá bænum. Voru þær því 454 milljónum umfram áætlun.

Rekstrartekjur Garðabæjar fyrir árið 2016 námu 12,6 milljörðum króna, en þær voru 10,3 milljarðar árið 2015. Rekstrargjöld bæjarins námu hins vegar 10,3 milljörðum en þau námu 9,5 milljörðum árið 2015 sem þýðir um 800 milljóna útgjaldaukning.

4,2% íbúafjölgun

Í árslok 2016 voru 15.250 íbúar í bænum sem þýðir að þeim fjölgaði um 603 á árinu, eða um 4,2% en í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir 1,5% íbúafjölgun, en þessari aukningu fylgir hækkun útsvarstekna.

Eins og áður sagði voru 973 milljóna króna gatnagerðartekjur nú tekjufærðar, en þær komu til vegna Sjálandshverfis og Akrahverfis.

Skuldahlutfall bæjarins er nú komið niður í 79% en árið 2015 nam það 101%, en veltufé frá rekstri er 20,6%, veltufjárhlutfallið er 0,56 og eiginfjárhlutfallið 56%.

650 milljónir í gatnagerð

Á árinu 2016 námu fjárfestingar sveitarfélagsins 1.209 miljónum króna, en áætlunin hafði gert ráð fyrir að þær myndu nema 1.228 milljónum króna, en helstu framkvæmdir voru bygging nýs grunn- og leikskóla í Urriðaholti fyrir rúmlega 400 milljónir króna.

Á árinu voru keyptar fasteignir fyrir 304 milljónir króna, framkvæmdir við gatnagerð námu 650 milljónum króna, en tekjur af eignfærði gatnagerð námu 376 milljónum króna. Síðan voru 160 milljónir króna varið til íþróttamannvirkja auk ýmissa annarra smærri verkefna.