Eignarhaldsfélagið Hornsteinn, móðurfélag BM Vallár, Sementsverksmiðjunnar og Björgunar, hagnaðist um rúmlega 1,7 milljarða króna á síðasta ári. Árið áður hagnaðist félagið um 565 milljónir króna og því ríflega þrefaldaðist hagnaðurinn milli ára.

Þess ber þó að geta að hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna upp á um 1,1 milljarð króna spilar stóra rullu í hagnaðaraukningunni. Er þar um að ræða sölu á hluta af landi í eigu félagsins en í september á síðasta ári gekk Framkvæmdafélagið Höfði frá kaupum á hluta af svæði BM Vallá við Breiðhöfða 3 og Bíldshöfða 7.

Viðskiptin eru liður í yfirvofandi flutningum BM Vallár en til stendur að byggja íbúðahverfi þar sem höfuðstöðvar félagsins eru staðsettar í dag. Í ársreikningi kemur fram að á síðasta ári hafi félagið gengið frá samningum sem tryggi veru þess á núverandi staðsetningu til ársins 2030. Þar segir jafnframt að félagið muni byrja að flytja hluta starfsemi sinnar fyrr og að viðræður standi yfir við Reykjavíkurborg gagnvart nýrri staðsetningu.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins, bendir á að óhjákvæmilega muni endurfjárfestingarþörf koma til skjalanna við höfuðstöðvarflutningana. „Við vonumst til að sala landsins muni að mestu standa undir endurstaðsetningarkostnaði.“

Rekstrartekjur Eignarhaldsfélagsins Hornsteins námu rúmlega 10,8 milljörðum króna í fyrra og jukust um 49% frá fyrra ári. Fyrrnefndur söluhagnaður upp á 1,1 milljarð króna vegna lóðasölunnar fellur þarna undir en tekjur af aðalstarfsemi námu 9,6 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 7,1 milljarða árið áður. Rekstrargjöld námu 8,3 milljörðum og jukust um 2,3 milljarða milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam því 2,5 milljörðum í fyrra, samanborið við 1,3 milljarða árið áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild sinni hér.