Gjaldþrotaskiptum á félaginu BG Fasteignum ehf. lauk nú á dögunum, eða 8. apríl. Rúm ein milljón króna var greidd upp í kröfur sem gerðar voru til slitabúsins – en þær hljóðuðu upp á rúmlega 17 milljarða króna. BG Fasteignir ehf. var úrskurðað gjaldþrota snemma þessa árs, eða 27. janúar. Það var Mandat lögmannsstofa sem fór með slit félagsins.

BG Fasteignir var í eigu Baugs Group fyrir hrun. Það var stofnað upprunalega árið 2006 og skráð til húsa í höfuðstöðvum Baugs á Túngötu 6. Þá voru þeir Stefán Hilmar Stefánsson, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Gunnar Snævar Sigurðsson í stjórn félagsins þegar það var stofnað, en þeir voru allir stjórnendur hjá Baugi Group á þeim tímapunkti. Nokkurt flakk varð á BG Fasteignum eftir stofnun þess.

Árið 2007 hafði FL Group eignast félagið, og svo rétt ári síðar, 2008, hafði Landic Property fest kaup á því – en þá varð fyrst tap á rekstri þess – um 86 milljóna punda eða 16 milljarða króna tap. Eigið fé félagsins varð þá neikvætt um sömu upphæð. Samkvæmt ársreikningi félagsins frá árinu 2014 var tap ársins eftir skatta rétt um sjö þúsund krónur – árið þar á undan hafði verið 380 króna hagnaður af því.

Þá var hrein eign þess neikvæð um 14,8 milljarða króna. Samtals skuldaði félagið 17,2 milljarða króna. Handbært fé í árslok 2014 nam þá einni og hálfri milljón, en gera má ráð fyrir að það hafi verið eina fjármagnið sem fékkst upp í kröfur til slitabúsins. Í ársreikningnum frá 2014 segir að eignir félagsins nemi um 2,4 milljörðum króna í formi lána sem gerð voru til Prestbury og annars félags sem heitir LxB III.

BG Fasteignir ehf. hélt meðal annars utan um hlut Baugs í félagi sem hét Prestbury Ltd., sem var fjárfestingarsjóður. Baugur ásamt fjárfestingarsjóð skoska viðskiptamannsins Tom Hunter fjárfesti í ýmislegu húsnæði gegnum Prestbury Ltd. – til að mynda fyrir meira en áttatíu og fimm milljarða króna í einkareknum sjúkrahúsum erlendis, rétt fyrir hrun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .