Tesla hefur verið dæmt til að greiða um 130 milljónir dala – um 16,6 milljarða króna – fyrir að bjóða þeldökkum fyrrverandi starfsmanni upp á rasískt vinnuumhverfi. Wall Street Journal segir frá .

Átta manna kviðdómur komst að niðurstöðunni og dæmdi Owen Diaz, sem vann sem lyftuvörður í verksmiðju Tesla í Kaliforníu árin 2015 til 2016, sem þá var eina verksmiðja fyrirtækisins, umrædda upphæð í skaðabætur.

Rafbílaframleiðandinn er sagður hafa brugðist Diaz með því að grípa ekki til viðeigandi aðgerða til að stöðva það kynþáttaníð sem hann varð fyrir. Samkvæmt lögmanni hans var hann ítrekað kallaður rasískum nöfnum og mátti horfa upp á rasískar teikningar og ummæli sem krotuð höfðu verið á baðherbergjum og víðar.

Diaz sagði dóminn beina kastljósinu að því hvað gengi á í verksmiðju Tesla og beindi því til Elon Musk, forstjóra Tesla, að „hreinsa verksmiðjuna“.

Lögmaður Tesla sagði engar sannanir fyrir því að starfsmaður Tesla hefði áreitt Diaz, og félagið ætti ekki að vera látið sæta ábyrgð á meintri hegðuninni. Fjölmargir verktakar störfuðu í verksmiðjunni, sem ráðnir hefðu verið í gegnum starfsmannaleigur.

Mannauðsstjóri Tesla segir fyrirtækið hafa beint því til starfsmannaleiga sinna að bæta úr hegðuninni þegar Diaz lagði fram kvörtun. Fyrirtækið teldi staðreyndir málsins ekki réttlæta dóminn. „Við viðurkennum þó að við vorum ekki fullkomin árin 2015 og 2016.“