Bókfært tap Skipta hf. á síðasta ári nam tæpum 17 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða tap árið á undan. Í afkomutilkynningu sem birt var í Kauphöll Íslands segir að tapið skýrist af 14 milljarða virðisrýrnun viðskiptavildar, ríflega 3 milljarða niðurfærslu á kröfu á hendur Glitni hf. Og 2,6 milljarða gjaldfærslu í varúðarskyni vegna endurákvörðunar skatta. Þá segir að þessi liðir hafi ekki áhrif á fjárstreymi

Rekstrarhagnaður fyrirtækisins, það er hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) hækkar aftur á móti úr 7,4 milljörðum króna í 8,3 milljarða. EBITDA hlutfall var 27,8% en var 25,5% árið á undan.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta hf. Lauk á síðasta ári. Síðan var Síminn sameinaður Skiptum hf og heitir fyrirtækið nú Síminn hf. „Þetta uppgjör einkennist af mikilli virðisrýrnun óefnislegra eigna sem veldur verulegu  tapi hjá samstæðunni. Slíkt tap hefur ekki áhrif á fjárhagslegan styrk félagsins né getu þess til að standa við allar sínar skuldbindingar. Efnahagsreikningurinn endurspeglar nú betur markaðsvirði félagsins við fjárhagslega endurskipulagningu á seinasta ári. Við teljum rétt að beita ítrustu varúð við mat á óefnislegum eignum og á einskiptiskostnaði,“ segir Orri Hauksson forstjóri Símans