Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um 0,83% í viðskiptum dagsins og endaði í 1.708,74 stigum. Velta með hlutabréf nam ríflega 3,7 milljörðum króna en viðskipti með skuldabréf námu 13,3 milljörðum. Samtals nam veltan rétt rúmlega 17 milljörðum króna.

Á hlutabréfamarkaði voru mest viðskipti með bréf í Icelandair Group eða 1,3 milljarða viðskipti. Gengi bréfanna hækkaði um 1,15% í þessum viðskiptum. Mesta hækkunin var á bréfum Sjóvár eða 1,78% í 60 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa í Eik fasteignafélagi hækkaði einni um 1,78% í 30 milljóna króna viðskiptum.

N1 hækkaði 1,5% í tæplega 430 milljóna króna viðskiptum og bréf í HB Granda hækkuðu um 1,42% í ríflega 190 milljóna króna viðskiptum. Aðeins varð lækkun á gengi bréfa í einu félagi en það var Reitir fasteignafélag. Gengi bréfanna lækkaði um 0,4% í tæplega 300 milljóna króna viðskiptum.

Á skuldabréfamarkaði var ríflega 10,9 milljarða króna velta með óverðtryggð bréf og rúmlega 2 milljarða velta með verðtryggð skuldabréf.