Knattspyrnudeild Breiðabliks var með mesta launakostnað allra félaga á Íslandi í fyrra, eða sem nemur hálfum milljarði króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu KSÍ og Deloitte um fjármál íslenskrar knattspyrnu sem kynnt er í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Á eftir Blikum koma Valsmenn, sem greiddu 307 milljónir króna í laun og launatengd gjöld í fyrra. Ársreikningur Vals tekur hins vegar ekki til launakostnaðar vegna yngri flokka starfs, einungis vegna meistaraflokks og 2. flokks.

Heildarlaun og launatengd gjöld félaganna sem tekin eru fyrir í skýrslunni námu rúmlega 3,5 milljörðum króna í fyrra.

Af þessum 3,5 milljörðum króna fóru tæpir 1,7 milljarðar króna í laun til meistaraflokksleikmanna.

Breiðablik og Valur bera höfuð og herðar yfir önnur félög þegar kemur að launum meistaraflokksleikmanna. Leikmenn Vals fengu samtals 209 milljónir króna í laun í fyrra. Hjá Breiðablik nam launakostnaðurinn 179 milljónum króna. Þar á eftir kemur Víkingur Reykjavík með 124 milljónir króna.

Nánar er fjallað um skýrslu KSÍ og Deloitte í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.