Eldur Ólafsson, forstjóri AEX Gold segir að allt frá unga aldri hafi hann haft mikinn áhuga á jarðfræði og þeim auðlindum sem leynast í jörðinni. „Við byrjuðum að horfa til Grænlands árið 2012 en kaupum fyrstu gullverkefnin ekki fyrr en 2015. Svo skráðum við félagið á markað árið 2017. Í framhaldinu af því höfum við verið að kaupa upp öll helstu verkefni sem tengjast gullleit á Grænlandi. Stærsta eignin okkar er náma í Nalunaq, á suðurodda landsins, en það var vinnsla í henni fram til ársins 2013. Gullæðin sem liggur í gegnum svæðið var fyrst fundin árið 1992. Í kjölfarið hófu menn að rannsaka svæðið og var sú vinna í gangi allt til ársins 2002, þegar gullvinnslan hófst loks.“

Að sögn Elds fylgdu því margir kostir að kaupa tilbúna námu. Meðal helstu kosta sé sá að fyrri eigendur námunnar hafi byggt höfn og 9 km langan veg að námunni. „Náman er staðsett neðanjarðar og er um 11 km af námugöngum. Einnig er vinnslustöð staðsett neðanjarðar. Það eru því nánast engin umhverfisáhrif af námunni sem er mikilvægt fyrir okkur. Fyrri eigendur unnu gull í námunni frá 2004 til 2013. Náman framleiddi á þessum tíma um 350.000 únsur af gulli, með meðalgildi upp á 15 g í hverju tonni. Þegar náman var í virkni var gullverð 300 dollarar á hverja únsu. Gullverð í dag er 1.400 dollarar og hærra gullverð gerir það að verkum að fleiri eru áhugasamir um geirann. Þegar við komum að þessu verkefni hafði ekki verið fjárfest í nýjum tækjabúnaði og á sama tíma hrundi gullverð, sem hefur áhrif á fjárfestingu inn í geirann. Þeir gátu ekki sýnt fram á við markaðinn að þeir gætu átt ákveðið mikið magn eftir af gulli og fengu því ekki frekari fjármögnun. Um leið og við tókum við námunni fórum við á fullt í rannsóknavinnu, en það var ekki mikill áhugi á gulli á þessum tíma. Miðað við rannsóknir gætu verið um 1,2 milljónir únsa af gulli í námunni.  Við erum hinsvegar bara búnir að sannreyna 263.000 únsur af þeim en við vinnum að því að sannreyna allar þessar únsur á sama tíma og við byrjum að framleiða.“

Eldur segir að rannsóknir hafi leitt það í ljós á síðustu 30 árum að 170 km langt gullbelti liggi á svæði í námunda við námuna, sem gæti innihaldið gríðarlega stóran gullforða. Þá sitji félagið eitt á öllum leyfum á þessu stóra svæði, sem að sögn Elds jafnast á við bestu gullbelti Kanada og Suður-Afríku. „Efnið sem við erum að vinna er með hátt hlutfall af gulli í hverju tonni. Við höfum náð að kaupa upp þau félög sem áttu leyfin, en þau hafa verið verðmetin á tugi milljóna dollara og þannig náð að sameina gagnagrunna þeirra inn í eitt félag.“

„Ástæðan fyrir því að við einblínum á Grænland er sú að landið býður upp á mikla möguleika. Við getum unnið umhverfisvænt gull innan umhverfislöggjafar sem gerist með því besta í heiminum í dag. Við leggjum áherslu á að orkan sem við notum á staðnum sé sjálfbær og sjáum möguleika á að virkja á sem rennur þarna í gegn og vind, sem gæti þá séð námunni og nærliggjandi umhverfi fyrir orku. Bærinn Nanortalik er einungis 30 km frá námusvæðinu og við gætum því hjálpað til við að byggja rafmagnsframleiðslu fyrir bæinn. Við leggjum mikla áherslu á að skila einhverju til samfélagsins. Við einblínum á það að nýta tækni í alla okkar vinnu hvort sem það eru innviðir, orka, jarðfræðivinna eða gagnagerð. Þetta teljum við að geti gefið okkur forskot á önnur félög Annar þáttur sem skiptir máli er að samfélagið á Grænlandi er mjög svipað samfélaginu á Íslandi, ef frá er tekið höfuðborgarsvæðið. Flestir bæir á Grænlandi líkjast sjávarþorpum úti á landi á Íslandi – þar sem allt kapp er lagt á fiskveiði. Maður finnur sig því mjög vel þarna. Það er ekkert svo langt síðan við vorum á svipuðum stað og Grænlendingar, hvað varðar menntunarstig og annað slíkt. Maður sér að þeir leggja áherslu á að opna landið og efla menntun, með það að markmiði að stuðla að sjálfstæðari efnahag. Þarna komum við auga á tækifæri, það eru til staðar miklar auðlindir í landinu en það vantaði fólk til að ganga í verkið,“ segir Eldur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .