Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak leiddi 170 milljóna króna fjárfestingu í félaginu Goodlifeme AB., sem framleiðir heilsuforritið SidekickHealth, en stór hluti starfsemi félagsins er hér á landi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Frumtaki.

„Frumtak leiðir fjárfestinguna en fleiri fjárfestar taka þátt, svo sem Tennin ehf.," segir í tilkynningunni.

Hugbúnaður sem hefur áhrif á hegðun

„SidekickHealth er hugbúnaður sem nýtir atferlishagfræði, leikjatækni og gervigreind til að greina áhættuþætti og hafa áhrif á heilsuhegðun í þeim tilgangi að draga úr algengi og alvarleika lífsstílstengdra sjúkdóma svo sem sykursýki af tegund 2, hjarta- og æðasjúkdóma.

Með því að beita grunnaðferðum atferlishagfræði ásamt gervigreind og leiðbeiningum frá Sóttvarna- og forvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) er hægt að bæta umtalsvert árangur í lífsstílsmeðferð sem er í boði á sérstökum námskeiðum sem lúta að því að hjálpa fólki að forðast sykursýki og aðra lífsstílstengda sjúkdóma.

Kennir notkun atferlishagfræði

SidekickHealth hugbúnaðurinn, sem hefur náð útbreiðslu í Bandaríkjunum, Íslandi og Svíþjóð er þróaður í samstarfi við hóp sérfræðinga við leiðandi stofnanir svo sem Landspítalann, Háskóla Íslands, Karolinska háskóla, Harvard háskóla og MIT háskóla, en Tryggvi Þorgeirsson, framkvæmdastjóri félagsins, er gestafyrirlesari við síðastnefndu tvær stofnanirnar þar sem hann kennir notkun atferlishagfræði við lífsstílsinngrip sem og gagnadrifna heilbrigðisþjónustu (e. data driven health).

Að auki kennir Tryggvi fyrirbyggjandi læknisfræði við Læknadeild Háskóla Íslands.

76% aukning í þyngdartapi

Í tilkynningunni segir að heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki hafi náð góðum árangri við notkun hugbúnaðarins til að bæta lífsstíl þátttakenda sinna og fyrirbyggja lífstílstengda sjúkdóma.

Segjast þeir hafa sé 76% aukningu í þyngdartapi með notkun hugbúnaðarins sem og 65% samdrætti í neyslu þátttakenda á gosi.

„Okkur finnst afar spennandi að hugbúnaðarlausn SidekickHealth er notuð til að spá, stýra og minnka áhættu sem tengjast lífsstílssjúkdómum," er haft eftir Eggerti Claessen, framkvæmdastjóra Frumtaks í tilkynningunni.

„[M]eð því að sameina gervigreind, smáforrit í síma og vísindalegar aðferðir með hvetjandi innihaldi fyrir notandann þannig að það hafi góð áhrif á heilsu starfsmanna og sjúklinga [...] minnkar þannig kostnað heilbrigðiskerfisins og fyrirtækja.”

Á Bandaríkjamarkað

Tryggvi Þorgeirsson, annar stofnenda og framkvæmdastjóri Goodlifeme AB. segir fjárfestinguna gefa þeim tækifæri til að þrófa vöruna enn frekar og koma henni víðar á framfæri.

„[S]érstaklega í Bandaríkjunum," er haft eftir Tryggva í kynningunni.

„Varan gefur fyrirtækjum og heilbrigðisstofnunum tækifæri til þess að greina lífsstílstengda áhættuþætti og hafa jákvæð áhrif á lífsstíl og heilsu skjólstæðinga sinna."