Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum lögaðila fyrir árið 2007 vegna rekstrar ársins 2006 falla 249 fyrirtæki undir þá skilgreiningu að vera stórfyrirtæki, samkvæmt viðmiði sem sett er fram í nýju lagafrumvarpi. Félag er talið stórfyrirtæki ef rekstrartekjur þess, að meðtöldum fjármagnstekjum samkvæmt ársreikningi, eru 10 milljarðar króna eða meiri, eða heildareignir þess skv. ársreikningi 5 milljarðar króna eða meiri. "Aðeins annað þessara skilyrða þarf að vera uppfyllt til að félag teljist stórfyrirtæki," er enn fremur útskýrt á vef fjármálaráðuneytisins.

Af þessum 249 fyrirtækjum, sem nefnd eru hér að ofan, eru 170 fyrirtæki, eða 70% af heild, með skattalegt heimilisfesti í Reykjavík þó að innan við helmingur af heildarfjölda lögaðila sé skráður þar. "Jafnframt sýna upplýsingar úr skattframtölum að stórfyrirtækin í Reykjavík eru margfalt umfangsmeiri en flest þeirra sem eru annars staðar, bæði er varðar tekjur og eignir," að því er segir á vef fjármálaráðuneytisins.

Í frumvarpinu er lagt til að skattaumsýsla stórfyrirtækja, sem rekin verður sem sérhæfð stjórnsýslueining, falli undir Reykjavíkurumdæmi og verði þar með á forræði skattstjórans í Reykjavík."Í dag dreifast umrædd fyrirtæki á nær öll skattumdæmi landsins, sem sum hver hafa ekki yfir að ráða því sérhæfða starfsfólki sem til þarf til að þjónusta slíka aðila," segir á vef ráðuneytisins. "Verði frumvarpið að lögum verður forræðið varðandi skattaleg úrlausnarefni þeirra fyrirtækja á hendi eins skattstjóra, sem hefur hefðbundið framkvæmdar- og úrskurðarvald í málum sem þeim tengjast óháð því hvar á landinu þau hafa skráð heimili. Með því fyrirkomulagi skapast möguleikar á að tryggja að skattlagning sambærilegra eða tengdra fyrirtækja sem hafa mikil umsvif verði samhæfðari og skilvirkari en verið hefur."