*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 23. febrúar 2021 14:05

17.000 störf til að útrýma atvinnuleysi

Ekki sé bara hægt að treysta á viðspyrnu ferðaþjónustunnar til að ná atvinnuleysi niður í „náttúrlegt“ stig, segir Konráð Guðjónsson.

Ritstjórn
Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs
Eyþór Árnason

Til þess að atvinnuleysi lækki í 3,5%, eða nálægt „náttúrulegu atvinnuleysi“ við lok næsta árs þyrfti að skapa um 17.000 störf næstu tvö árin. Þetta kom fram í kynningu Konráðs S. Guðjónssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, fyrir aðildarfélög VÍ síðasta föstudag. 

Um 14.000 störf glötuðust í ferðaþjónustunni síðastliðið ár og því telur Konráð ekki eingöngu hægt að stóla á viðspyrnu hennar. Fyrir vikið þurfi stjórnvöld „áfram og í frekari mæli“ að stuðla að fjölgun starfa í einkageiranum. 

Konráð veltir því einnig fyrir sér hvort Seðlabankinn hafi gengið of langt í að stuðla að sterkara gengi krónunnar með sölu gjaldeyri að andvirði margra milljarða króna í hverjum mánuði. Gengi krónunnar sé nú lítillega of sterk miðað við endurmetið jafnvægisgengi á sama tíma og horfur um viðskiptaafgang hafi versnað. 

Í kynningunni fjallaði Konráð líka um það misvægi sem hann telur hafa myndast í peningamagni og verðmætasköpun og hliðstætt misvægi í einkaneyslu og ráðstöfunartekjum. Ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um 5% milli mánaðanna apríl til september síðastliðnum á sama tíma og einkaneysla dróst saman. Sparnaður heimila hafi fyrir vikið aukist sem sjáist í miklum vexti innlána og kaup þeirra í verðbréfasjóðum fyrir 20 milljarða króna á síðasta ári. Þessir fjármunir styðji við efnahagsbatann þegar slakað verði á sóttvarnaraðgerðum en geti þó ýtt undir verðbólguna.