Orkuráð úthlutaði á fundi sínum 7. júní 172 milljónum til jarðhitaleitar á 29 stöðum sem ekki njóta hitaveitu.

Í frétt Orkustofnunar um málið segir að á næstunni verði starfað við jarðhitaleit fyrir nær 300 milljónir króna, miðað við kostnaðaráætlanir umsækjenda um styrki.

Úthlutun Orkuráðs er að mestu liður í mótvægisaðgerðum stjórnvalda vegna þorskaflaskerðingar. Auk þess er henni ætlað að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Umsóknir um styrki voru samtals 35, þar af voru 29 samþykktar. Lista yfir styrkþega má sjá í frétt Orkustofnunar um málið.