Tap Líftæknisjóðsins á síðasta ári nam 172,8 milljónum króna samanborið við 83,2 milljón króna tap árið 2003 og er tapið af stærstum hluta vegna styrkingar íslensku krónunnar. Innleyst tap ársins var 7,9 milljónir króna samanborið við 104,2 milljóna króna tap á árinu 2003.

Óinnleyst gengistap ársins var 164,9 milljónir króna samanborið við 21 milljón króna óinnleystan gengishagnað árið 2003. Heildareignir Líftæknisjóðsins hf, voru 439,5 milljónir króna í lok árs en voru 607.5 í ársbyrjun.

Eigið fé Líftæknisjóðsins hf var 324,1 milljónir króna í lok árs en var 496,9 milljónir króna í ársbyrjun.

Eignarhlutir félagsins í óskráðum félögum, sem að stærstum hluta eru erlend, eru sem fyrr metnir miðað við kaupverð í erlendri mynt að teknu tilliti til gengisbreytinga. Í lok árs 2001 var færð til lækkunar á bókfærðu verði eignarhluta 800 milljóna kr. niðurfærsla og stóð hún óbreitt fram yfir 9 mánaða uppgjör 2003. Í ársreikningi fyrir 2003 var niðurfærslan lækkuð um 150 milljónir króna og stendur hún í 650 milljónum króna í ársuppgjöri fyrir 2004.

Í tilkynningu félagsins kemurfram að þrátt fyrir að vel hafi gengið við að draga úr rekstrarkostnaði Líftæknisjóðsins hf á árinu 2004, samanborið við fyrri ár, þá er það sterk staða íslensku krónunnar sem og veiking bandaríkjadals sem hefur mest áhrif á afkomu félagsins á árinu 2004. Er breytingin á gengi krónunnar miðað við bandaríkjadal megin ástæðan fyrir óinnleystu gengistapi upp á 164,9 milljónir króna en það eru tæp 30% af verðmæti hlutabréfa í eigu félagsins eins og það var í upphafi árs.

Stjórnendur Líftæknisjóðsins hf vilja enn sem fyrr benda á að fjárfesting í lyfja-, líftækni- og erfðatæknifyrirtækjum er almennt afar áhættusöm og þrátt fyrir að þeir hafi trú á að eignir félagsins komi til með að skila ávinningi, þá beri að skoða þær og almenna starfsemi félagsins með tilliti til þess. Auk þess má geta að Líftæknisjóðurinn hf, hefur fjárfest í tiltölulega fáum fyrirtækjum sem gerir áhættuna enn meiri.

Skattinneign félagsins er reiknuð en ekki færð í árshlutareikninginn vegna óvissu um nýtingu hennar í framtíðinni. Útreikningurinn byggist á óinn­leystum gengismun hlutabréfa og mismun efnahagsliða samkvæmt skattuppgjöri annars vegar og árshlutareikningi félagsins hins vegar. Reiknuð skattinneign í lok tímabilsins nemur 246,2 milljónum króna.

Kröfur upp á 43,7 milljónir króna koma til vegna tveggja brúarlána til BioStratum Inc.