„Álið er lykilefniviður í hringrásinni. Það má endurvinna það aftur og aftur án þess að það tapi eiginleikum sínum,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

Ársfundur samtakanna var haldinn í morgun í Norðurljósum í Hörpu. Yfirskrift fundarins var „Hring eftir hring eftir hring: Áskoranir og lausnir í sjálfbærni, nýsköpun og loftslagsmálum“. Eins og yfirskrift fundarins gefur til kynna eru umhverfismál áliðnaðinum hugleikin um þessar mundir.

Pétur segir mikinn árangur hafa náðst í að draga úr losun í álframleiðslu hérlendis, með því að bæta kerstýringu og endurnýta flúor í framleiðsluferlinu. Þannig hafi verið dregið úr losun hjá álverunum um sem nemur 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990.

Pétur bendir á að álverin þrjú hafi haft mikil og jákvæð efnahagsleg áhrif á íslenskt samfélag. Innlendur kostnaður þeirra, þ.e. kaup þeirra á raforku, vörum og þjónustu og greiðsla launa og opinberra gjalda, hafi numið 174 milljörðum króna í fyrra. Á sama tíma hafi útflutningsverðmæti afurða þeirra numið um 400 milljörðum króna.

„Það er alveg ljóst að álverin hafa haft mikil og jákvæð efnahagsleg áhrif á íslenskt samfélag. Orkufyrirtækin eru að skila methagnaði í ár og Landsvirkjun að greiða 20 milljarða arð til í ríkisins, auk þess að greiða ríflega niður skuldir. Enda sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í viðtali þegar uppgjörið var kynnt að lykillinn að þessari góðu afkomu Landsvirkjunar væru þessi traustu, stóru og alþjóðlegu fyrirtæki,“ segir Pétur.

Nánar er fjallað um álverin í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.