Fimm stofnanir sem heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið vörðu rúmlega 175 milljónum króna í greiðslur til félagasamtaka sem þær tilheyra á undanförnum sjö árum. Stofnanirnar eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, Ferðamálastofa, Einkaleyfastofa og Samkeppniseftirlitið. Þetta kom fram í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur þingmanni Pírata.

Langstærstur hluti þessarar upphæðar er tilkominn vegna framlaga Ferðamálastofu til félagasamtaka. 128,5 milljónir fóru til NATA, North Atlantic Tourism Association, og 16,5 milljónir til European TravelCommission. Fulltrúi Ferðamálastofu situr stjórnarfundi í báðum þessum samtökum.

Lægstu framlögin eru hjá Einkaleyfastofu, en framlögin nema 42 þúsund krónum til Félags forstöðumanna ríkisstofnana, sem forstjóri stofunnar er aðili að.