Þokkalega virðist ganga að afhenda fyrstu Tesla bifreiðar sem til landsins komu á dögunum á vegum nýopnaðs útibús rafbílaframleiðandans. Afhending hófst rétt fyrir síðustu mánaðamót og voru 11 Teslur nýskráðar í febrúar, en það sem af er marsmánuði eru þær orðnar 164.

Alls hafa 492 nýir fólksbílar verið nýskráðir í mars, en slétt þriðji hver er Tesla. Þá má þess geta að áður en afhending sendingarinnar hófst voru 146 Tesla bifreiðar í umferð hér á landi, og sú tala hefur því vel ríflega tvöfaldast á þeim rúmu tveimur vikum sem liðnar eru síðan afhendingar hófust, og er heildarfjöldi þeirra hér á landi nú á fjórða hundrað.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að skriffinnskan sem afhendingu og viðtöku bílanna fylgir hafi í einhverjum tilfellum vafist fyrir þeim sem að málinu koma. Ólíkt öðrum bílasölum og umboðum þurfi viðskiptavinir að vera milliliðir milli Tesla og lánveitenda, taki þeir lán hjá öðrum en Ergo sem er samstarfsaðili Tesla.

Þrátt fyrir 0,5% vaxtaafslátt Teslakaupenda hjá Ergo eru lánakjör hinsvegar lakari þar en hjá mörgum öðrum lánveitendum, sem flestir fella niður lántökugjöld lána vegna kaupa á rafbílum. Lántökugjald Ergo er 3,1%.