Aprílmánuður síðastliðinn var sá næstfjölmennasti í sögunni í brottförum Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli, en þá fóru alls 62,2 þúsund Íslendingar erlendis.

Þetta kemur fram í tölum Ferðamálastofu Íslands, en þessi tala hefur aðeins einu sinni áður stigið hærra, sem var í júnímánuði í fyrra, þegar talan var 67,1 þúsund að því er Íslandsbanki greinir frá. Eins og margir muna þá stóð EM í knattspyrnu í Frakklandi þá hæst.

Hækkunin í aprílmánuði nemur 60% frá sama mánuði í fyrra, en einnig hefur áhrif á það að páskarnir voru í apríl í ár en í mars í fyrra. Aukningin milli ára í brottförum Íslendinga nemur þó 27% ef horft er á það sem af er ári og á sama tímabil í fyrra, og hafa þær aldrei verið fleiri á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu 175,5 þúsund talsins.