Frá árinu 2007 hafa verið gerðar 176 breytingar á skattkerfinu. Breytingarnar skiptast í 44 skattalækkanir og 132 skattahækkanir. Fyrir hverja skattalækkun hafa því skattar verið hækkaðir þrisvar sinnum. Þetta eru niðurstöður uppfærslu á yfirliti Viðskiptaráðs Íslands yfir skattabreytingar undanfarinna ára .

Í frétt Viðskiptaráðs kemur fram að stjórnvöld hafi undanfarin tvö ár undið ofan af óhagfelldri þróun skattkerfisins árin á undan. Boðaðar aðgerðir um lækkun og einföldun tekjuskatta ásamt afnámi tolla á fatnað og skó séu í því samhengi fagnaðarefni.

Samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs eru þetta veigamestu breytingarnar frá 2007:

  • Tekjuskattur einstaklinga hefur hækkað um 34%
  • Útsvar hefur hækkað um 11%
  • Fjármagnstekjuskattur hefur hækkað um 100%
  • Erfðafjárskattur hefur hækkað um 100%
  • Áfengisgjöld hafa hækkað um 60%
  • Kolefnisgjöld á bensín og díselolíu hafa hækkað um 100%
  • Tryggingagjald hefur hækkað um 37%
  • Útvarpsgjald hefur hækkað um 75%

Yfirlit Viðskiptaráðs má nálgast í heild sinni hér.