Alls var kröfum upp á 177 milljarða króna lýst í þrotabú Samson. Þetta segir Helgi Birgisson, skiptastjóri þrotabúsins, í samtali við VB.is. Fréttavefur Morgunblaðsins greinir frá því í dag að 77 milljarða kröfur hafi verið samþykktar og staðfestir Helgi þá tölu við VB. Eignir í þrotabúinu nema innan við 10% af samþykktum kröfum.

Kröfuhafafundur verður haldinn þann 12. nóvember næstkomandi. Helgi segir að slitum á þrotabúinu muni ekki ljúka strax. Þrotabúið eigi meðal annars kröfur annarsstaðar og ekki sé hægt að slíta búinu fyrr en þau mál eru frágengin.

Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson voru eigendur Samson. Stærsta eign Samson var kjölfestuhlutur í Landsbankanum og stór eignarhlutur í Eimskipi. Helstu kröfuhafar Samson eru suðurafríski bankinn Standard og þýski bankinn Commerzbank. Lýstu þeir sameiginlega um 50 milljarða kröfum í þrotabúið.