*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 3. apríl 2020 16:31

18 af 20 félögum lækkað frá áramótum

Hlutabréf í öllum félögum nema Heimavöllum og Högum hafa fallið í verði frá ármótum.

Ritstjórn

Hlutabréfaverð allra félaga á aðallista Kauphallarinnar hafa lækkað það sem af er þessu ári að undanskildum Heimavöllum og Högum, en félögin á aðallistanum eru alls tuttugu.

Mest er lækkunin á bréfum Icelandair eða 51,7% frá áramótum. Þá hefur Arion banki lækkað um 37,4%, Eimskip um 33,5%.

Fasteignafélögin Reitir (-29,4%), Eik (-25,3%) og Reginn (-21,8%) hafa einnig lækkað verulega. Þá hafa hlutabréf í Iceland Seafood fallið um 23,7%, Kviku og TM um 20%, Sýn um tæp 19%, Origo um tæp 15%, Sjóvá um 12,3%, VÍS um 11,4%, Festi um 9,3%, Skeljungi um 9,2%, Marel um 9,1%, Símanum um 3,7% og Brimi um 1,2%.

Hlutabréfaverð í Heimavöllum hefur hækkað um 29,2% frá áramótum en norska fasteignafélagið Fredensborg hefur eignast félagið að mestu eftir yfirtökutilboð í mars. Hlutabréf í Högum hafa hækkað um 10% frá áramótum.

1,4 milljarða velta í dag

Bréf Haga hækkuðu mest allra í viðskiptum dagsins eða um 3,66% en viðskipti með bréfin námu hins vegar einungis 2 milljónum króna. Þá hækkuðu bréf í VÍS um 2,13% í 161 milljón króna viðskiptum og Kviku um 1,44% í 496 milljóna króna viðskiptum. Arion banki lækkaði um 2,88% í dag í 18 milljóna króna viðskiptum, Origo um 2,43% í 2 milljóna króna viðskiptum og Eik um 2,23% í 21 milljón króna viðskiptum.

Heildarveltan í Kauphöllinni í dag nam 1,4 milljörðum króna í 152 viðskiptum.