Owen Thor Walker, 18 ára drengur frá Nýja Sjálandi, var í dag dæmdur sekur fyrir að stýra alþjóðlegum glæpahring tölvuhakkara sem stálu milljónum dollara af bankareikningum, samkvæmt frétt The Guardian.

Hakkararnir náðu stjórn á 1,3 milljónum tölva um allan heim án þess að tölvueigendur vissu af því. Þeir sendu reglubundið út vírusa, orma og „Trójuhesta“. Tölvurnar voru svo notaðar til að komast inn á bankareikninga fólks, stela kreditkortanúmerum eða láta óvelkominn fjölpóst (e. spam) dynja á notendum þeirra.

Walker hannaði hugbúnaðinn sem réðst gegn vírusvarnarforritum heimilistölva og seldi hann svo til glæpamanna um allan heim.  Walker var yngri en 18 ára þegar hann framdi glæpinn og sýndi samstarfsvilja við lögregluna í Nýja Sjálandi við að upplýsa glæpinn. Hann bíður þess  nú að dómarinn ákveði refsingu, en dómarinn segist ekki vera að íhuga fangelsisrefsingu.