817 kjósendur af 4542, eða tæplega 18 prósent þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi, strikuðu yfir nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrum formanns og oddvita flokksins í NA-kjördæmi. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins (RÚV).

Það þýðir þó ekki að Sigmundur verði færður niður um sæti á listanum niður fyrir framsóknarkonuna Þórunni Egilsdóttur, sem sat í öðru sæti listans. Til þess hefðu 20 prósent þurft að strika yfir nafn Sigmundar.

Það gæti þó gerst að Sigmundur færist niður um lista yfir kjördæmakjörna þingmenn, en það er í höndum Landstjórnar að ákveða það.

Ummæli Sigmundar Davíðs þess efnis að Framsóknarflokkurinn hefði getað fengið 18 til 19 prósent fylgi undir hans stjórn hafa vakið nokkra athygli. Hann sagðist hafa drög af áætlun um það hvernig hefði verið hægt að auka fylgi Framsóknar um 4 prósentustig og svo kannski tvö til viðbótar.

8,21% strika yfir Þorgerði Katrínu

Nafn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, oddvita Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, var það sem oftast var strikað út af kjörseðlum hjá kjósendum í Suðvesturkjördæmi. Þetta kemur fram í frétt Mbl.is . Alls var nafn hennar strikað út eða fært neðar á lista 563 sinnum eða 8,21% þeirra sem kusu Viðreisn.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var næstoftast strikaður út eða færður neðar á lista í kjördæminu, en hann var strikaður út 274 sinnum.